Starfsáætlun foreldrafélags/ráðs veturinn 2019 - 2020



Starfshættir og reglur foreldraráðs/foreldrafélags leikskólans Krummakots.

Þessar reglur eru unnar upp úr handbók foreldraráða í leikskólanum sem gefin var út frá Heimili og Skóla árið 2010. Þar fá foreldráð og foreldrafélög leyfi til að nota hana og aðlaga að sínum þörfum.

Foreldrafélag er samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í leikskólanum, til að koma á framfæri skoðunum foreldra við skólastjórnendur og sjá um að skipuleggja foreldrastarfið í skólanum. Markmið foreldrafélaga er að efla tengsl foreldra við starf leikskóla og tryggja velferð barnanna. Kosnir eru fimm foreldrar í stjórn foreldrafélagsins á aðalfundi í september og kosið er til tveggja ára í senn. Til skiptis ganga út tveir til þrír fulltrúar. Ný stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi vetrarins og gengur að þeim verkum í eitt skólaár, eða fram að næstu kosningu. Stjórnin samanstendur af formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Formaður, varaformaður og ritari eru fulltrúar í foreldraráði, gjaldkeri og meðstjórnandi eru varamenn í foreldraráði. Taka skal fram að starfsmenn skólans geta setið í sæti gjaldkera og meðstjórnanda en taka þá ekki sæti í foreldráði vegna hagsmunaárekstra.

Allir foreldrar/forráðamenn verða sjálfkrafa félagar um leið og barnið byrjar í leikskólanum og greiða foreldrafélagsgjald, 600 kr. á heimili, en stjórn félagsins ákvarðar gjaldið hverju sinni. Foreldrafélagið fjármagnar með því gjaldi ýmsa atburði í leikskólanum, s.s. jólatrésleiðangur, jólagjafir til barnanna, útskriftargjafir, íþróttadag, leiksýningar, fyrirlestra og námskeið og tekur þátt í kostnaði við litlu jól og Krummadaginn.

Á aðalfundi í september er ávallt farið yfir ársskýrslu, lög félagsins, reikninga síðasta skólaárs og kosið er í foreldrafélag/foreldraráð. Leikskólastjóri fer yfir helstu áherslur skólaársins og að lokum eru kynningar á starfi deildar.

Foreldraráð er lögbundinn vettvangur foreldra til að koma skoðunum sínum á framfæri við skólastjórnendur varðandi innihald, áherslur og skipulag skólastarfsins. Í leikskólanum starfar eitt foreldraráð. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði.

Foreldraráð vinnur að verkefnum sínum í samræmi við starfsreglur foreldraráðs og lög um leikskóla nr. 90/2008. Þegar unnið er að verkefnum er náið samráð og samstarf haft við bæði skólastjórnendur og foreldrafélag. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar í leikskólastarfi.

Starfsreglur foreldraráðs í leikskólanum Krummakoti

1. grein

Reglur þessar gilda um starfsemi foreldráðs og samskipti þess við skólastjóra, foreldrafélag, fræðsluráð/skólanefnd, skólaskrifstofu sem og landssamtök foreldra. Skólastjóri sér um að starfsreglur foreldrráðsins séu kynntar foreldrum, m.a. með birtingu þeirra í skólanámskrá og á heimasíðu skólans. Foreldraráð skal hafa svæði á heimasíðu skólans til að kynna starfsemi sína og æskilegt er að foreldraráð hafi eigið netfang. Foreldrar eiga að geta haft beint samband við fulltrúa í foreldraráði og eiga nöfn, netföng og símanúmer að vera á vefsíðu skólans.

Skólastjóri ber jafnframt ábyrgð á að skólaskrifstofu sé tilkynnt um nöfn, heimilisföng og netföng fulltrúa í foreldraráði strax að lokinni kosningu þeirra. Formaður foreldraráðs (sjá 8. gr. laga nr. 90/2008) sér um að koma þeim upplýsingum til svæðisráðs leikskólaforeldra, menntamálaráðuneytis og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

2. grein

Foreldraráð starfar skv. ákvæðum 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008. Í foreldraráði eiga sæti a.m.k. þrír fulltrúar foreldra og tveir varafulltrúar. Á Krummakoti eru fulltrúar í foreldraráði skipaðir af formanni, varaformanni, ritara og tveimur varamönnum. Tilnefnt er einn aðal- og einn varafulltrúa foreldra sem áheyrnarfulltrúi í skólanefnd og æskilegt er að það sé formaður, varaformaður eða ritari sem tekur það sæti. Þessir fulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt. Taka skal fram að kjörnir fulltrúar í foreldraráð skuli ekki vera starfsmenn skólans.

Foreldraráðið stefnir að því að halda almennan fund með foreldrum/forráðamönnum nemenda í byrjun hvers skólaárs þar sem leitað er eftir sjónarmiðum foreldra varðandi skólahaldið. Á þeim fundi, sem haldinn er í september, er kosið til foreldraráðs- og félags og kosið er til tveggja ára í senn, en stjórnin skiptir með sér hlutverkum í upphafi hvers skólaárs. Til skiptis ganga út tveir eða þrír fulltrúar á aðalfundi. Kosningarétt hafa foreldrar/forráðamenn barna í leikskólanum. Óska skal eftir tilnefningum til ráðsins tímanlega og í síðasta lagi í fundarboði. Á fundinum skal foreldraráð gera grein fyrir starfsemi sinni á liðnu starfsári. Ársskýrsla foreldraráðs skal birt á vef skólans.

3. grein

Í upphafi skólaárs skal foreldraráð setja sér starfsáætlun og birta hana á heimasíðu skólans. Einnig gerir það í samvinnu við skólastjóra áætlun um sameiginlega fundi á skólaárinu en foreldraráðið fundar a.m.k. tvisvar á ári með skólastjórnendum. Á sameiginlegum fundum skólastjóra, foreldraráðs og foreldrafélags veitir skólastjóri upplýsingar varðandi starfsemina og skólahald almennt, breytingar á henni og þróun.

Skólaárið 2019-2020 fundar foreldrráð sameiginlega með skólastjóra og sveitarstjóra sem hluti af umbótaráætlun á starfsemi leikskólans.

Foreldraráð afhendir skólastjóra afrit af erindum og umsögnum er varðar skólann og skólahald, þegar þær eru sendar öðrum aðilum.

Foreldraráði er veittur nauðsynlegur aðgangur að skólahúsnæðinu, búnaði og skrifstofuþjónustu, s.s. prentun, ljósritun og póstdreifingu eftir þörfum. Einnig fær foreldraráðið að senda út tilkynningar til foreldra með tölvupósti í gegnum póstlista skólans.

4. grein

Drög að skólanámskrá næsta vetrar skal tekin til umfjöllunar og umsagnar að vori. Foreldraráð getur, ef þörf þykir, boðað skólastjóra og aðra starfsmenn skólans til fundar þar sem farið er yfir námskránna, hún skýrð nánar og foreldraráði gefinn kostur á að bera upp fyrirspurnir. Foreldraráð/félag gefur skriflega umsögn um skólanámskrá og skal hún send skólastjóra og fræðslunefnd/skólanefnd eigi síðar en 30 dögum eftir að það fær hana til umsagnar. Með umsögn sinni og athugasemdum getur foreldraráðið sett fram tillögur um breytingar á skólahaldi og rekstri skólans og óskað eftir að þær verði teknar til umfjöllunar og afgreiðslu.

Aðrar áætlanir sem varðar skólahaldið, s.s. skóladagatal, áætlanir um nýtingu fjármagns, áform um byggingar, viðhald og aðrar framkvæmdir, búnað skólans og skólaakstur skulu lagðar fyrir foreldraráð til umsagnar jafnskjótt og þær verða til. Skólaskrifstofa sendir foreldraráði til umsagnar áætlanir sínar um meiri háttar breytingar í skólanum áður en ákvarðanir eru teknar.

5. grein

Foreldraráð hlutast til um að áætlanir um skólahaldið þ.m.t. skólanámskrá og einnig umsögn ráðsins um hana sé kynnt öllum foreldrum, m.a. með því að gæta að því að skólanámskrá sé aðgengileg á heimasíðu skólans. Foreldraráðið fylgist með að áætlunum skólanámskrá sé framfylgt.

6. grein

Foreldraráð í náinni samvinnu við skólastjóra og skólaskrifstofu hlutast til um að kanna með faglegum hætti viðhorf og væntingar foreldra varðandi skólahaldið. Foreldraráðið mælist með að slík viðhorfskönnun sé gerð árlega og gerðar verði skriflegar umbótaráætlanir út frá niðurstöðum hennar. Foreldraráð gætir þess að niðurstöður og umbótaráætlanir slíkra kannanna séu kynntar fyrir foreldrum og séu aðgengilegar á heimasíðu skólans.

7. grein

Í leikskólanum Krummakoti starfar foreldraráðið í náinni samvinnu við stjórn foreldrafélagsins og sitja í því sömu meðlimir, á þann hátt að formaður, varaformaður og ritari foreldrafélagsins eru fulltrúar í foreldraráðinu og gjaldkeri og meðstjórnandi eru varafulltrúar.

8. grein

Fulltrúar í foreldraráði velja sér formann og skipta með sér verkum (formaður – varaformaður – ritari og varafulltrúa auk fulltrúa í skólanefnd) á fyrsta fundi ráðsins eftir kosningar hverju sinni og leggja drög að starfsáætlun fyrir næsta skólaár.

Foreldraráð kemur saman til fundar a.m.k. einu sinni í mánuði yfir skólaárið. Formaður undirbýr fundi og boðar til þeirra með dagskrá. Foreldraráðið er bundið trúnaði og eru fundir stjórnar að jafnaði haldnir fyrir luktum dyrum og er óheimilt að greina frá ummælum einstakra fundarmanna á fundum. Fundur er lögmætur ef meira en helmingur stjórnarmanna er á fundi.

9. grein

Foreldraráð heldur fundargerðarbók. Ritari ritar fundargerðir á fundum foreldraráðs og ber ábyrgð á að senda fundargerðir til skólastjórnenda og skólaskrifstofu / skólanefnd. Fundargerðir skulu einnig vera birtar á vefsíðu skólans.

10. grein

Ef foreldrar eru ósáttir eða hafa athugasemdir um skólahaldið geta þeir komið athugasemdum til foreldraráðs ef aðrar leiðir eru ófærar. Foreldraráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólk skólans.

11. grein

Foreldraráðsfulltrúum er skylt að gæta trúnaðar varðandi upplýsingar um einstaklinga, nemendur, kennara eða aðra sem þeir verða áskynja um í starfi sínu. Æskilegt er að foreldraráðsfulltrúar skrifi undir þagnareið og með undirskrift sinni á þessum reglum staðfestir foreldraráðið þagnareið sinn.

12. grein

Sé lögum og reglum um leikskóla eða áætlunum um skólahald ekki framfylgt að mati foreldraráðs ber því að tilkynna það til menntamálaráðuneytisins, enda hafi ábendingum þess til skólastjóra og/eða skóla- og fræðslusráðs ekki verið sinnt.

Samþykkt á fundi foreldraráðs 29. september 2019

Katrín Júlía Pálmadóttir, formaður

Sóley Kjerúlf Svansdóttir, varaformaður

Þorbjörg Helga Konráðsdóttir, ritari og fulltrúi foreldaráðs í skólanefnd

Sara María Davíðsdóttir, gjaldkeri

Stefanía Árdís Árnadóttir, meðstjórnandi


Í eftirfarandi töflu má sjá helstu hlutverk og verkefni foreldrafélags og foreldraráðs. Starfsemi foreldraráðs er lögbundin og hlutverk þess hefur lagalegan grunn og felst einkum í því að fylgjast með starfsemi leikskólans. Starfsemi foreldrafélags er ekki lögbundið en það gegnir mikilvægu hlutverki í að efla samstarf heimilis og skóla. Bæði foreldraráð og foreldrafélag hafa þó það meginmarkmið að starfa saman að því að efla samstarf heimilis og skóla. Því geta hlutverk þeirra og verkefni stundum skarast enda á að vera virkt samstarf milli þeirra og á leikskólanum Krummakoti hefur verið ákveðið að sömu fulltrúar sitji í foreldraráði og í stjórn foreldrafélags.

Hlutverk foreldraráðs

 • Fjallar um og gefur umsögn til leikskólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið
 • Fylgist með framkvæmd áætlana og að þær séu kynntar foreldrum
 • Kemur á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra til skólastjórnenda og skólanefndar
 • Starfar með skólastjóra að hagsmunum barnanna og leikskólans

Hlutverk foreldrafélags

 • Vera samstarfsvettvangur foreldra
 • Stuðla að góðum skólaanda m.a. með því að vinna að öflugu félagslífi í leikskólanum
 • Stuðla að auknum kynnum barna, foreldra og starfsmanna skólans
 • Koma á framfæri sjónarmiðum og hugmyndum foreldra varðandi leikskólastarfið til skólastjórnenda og foreldraráðs

Verkefni foreldraráðs

 • Fulltrúi situr skólanefndarfundi og kemur þar sjónarmiðum foreldra á framfæri auk þess að leggja fram tlilögur ef við á
 • Situr fundi með foreldrafélögum og skólastjórnendum um skólastarfið og áætlanir því tengdu
 • Fer yfir skólanámskrá og aðrar áætlanir skólans og útbýr umsagnir um þær
 • Taka þátt í ýmsum verkefnum á vegum skólanefndar sem fulltrúar foreldra
 • Taka þátt í samstarfi foreldraráða og –félaga um sameiginlega hagsmuni nemenda í svæðinu
 • Taka þátt í landssamtökum foreldra

Verkefni foreldrafélaga

 • Skipuleggja viðburði í samstarfi við leikskólann
 • Styðja og hvetja deildarfulltrúa til að efla deildaranda og foreldrasamstarf á hverri deild
 • Koma á umræðu- og fræðslufundum fyrir foreldra um uppeldis- og leikskólamál
 • Veita leikskólanum lið í að bæta aðstæður til leiks og náms
 • Sitja fundi með foreldraráði og skólastjórnendum um skólastarfið
 • Taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög og samtök foreldra á sínu svæði
 • Taka þátt í landssamtökum foreldra