Reglur foreldraráðs og foreldrafélags Krummakots

1. grein Foreldraráð leikskólans Krummakots starfar samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008. Í foreldraráði eiga sæti 5 fulltrúar. Foreldraráð fer einnig með stjórn foreldrafélags Krummakots en aðild að foreldrafélaginu eiga allir foreldrar/forráðamenn barna í leikskólanum Krummakoti.

2. grein. Aðalfundur og kosningar. Aðalfundur foreldraráðs skal haldinn í september ár hvert. Þá skulu kosnir fulltrúar til setu í foreldraráði til tveggja ára í senn. Til skiptis ganga út tveir eða þrír fulltrúar á hverjum aðalfundi. Kjörnir fulltrúar taka sæti í foreldraráði þegar að kjöri loknu. Kjörtímabil er frá aðalfundi til aðalfundar. Kosningarétt hafa foreldrar/forráðamenn allra barna í leikskólanum. Til kjörfundar skal boðað með a.m.k viku fyrirvara. Óska skal eftir tilnefningum til ráðsins tímanlega og í síðasta lagi í fundarboði aðalfundar. Á fundinum skal foreldraráð gera grein fyrir starfsemi sinni á liðnu starfsári. Skýrsla foreldraráðs skal birt á vef skólans.

3. grein. Þagnarskylda. Foreldraráðsfulltrúum er skylt að gæta trúnaðar varðandi upplýsingar um einstaklinga, nemendur, kennara eða aðra sem þeir verða áskynja um í starfi sínu. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn með samþykki allra fulltrúa foreldraráðs.

4. grein. Hlutverk. Foreldraráð gefur umsagnir til leikskóla og nefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir er varða starfsemi leikskólans. Foreldraráð fylgist með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar í leikskólastarfi með velferð barnanna að leiðarljósi.

5. grein. Fundir foreldraráðs. Fulltrúar í foreldraráði velja sér formann og skipta með sér verkum á fyrsta fundi hverju sinni. Hlutverk skulu vera: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Foreldraráð heldur fundargerðarbók. Fundargerðir eru birtar á heimasíðu leikskólans.

6. grein. Foreldrafélag. Félagsgjald í foreldrafélagið er kr. 600. Félagsgjaldi má breyta með samþykkt meirihluta fundarmanna á aðalfundi og greiðist einu sinni fyrir hvert heimili. Markmið foreldrafélagsins er að stuðla að velferð barnanna með því að styrkja samskipti foreldra og starfsfólks leikskólans og leggja hagsmunum barnanna lið innan leikskólans. Í þessu felst m.a. samvinna foreldra og starfsfólks leikskólans varðandi fræðslufundi, leiksýningar og aðrar uppákomur. Samþykkt á aðalfundi 26. september 2013.