Karellen

Í Krummakoti er lögð mikil áhersla á gott og gagnlegt foreldrasamstarf. Það má með sanni segja að góð samvinna og gagnkvæmur trúnaður foreldra og kennara sé ein mikilvægasta forsenda þess að leikskóladvölin verði barninu ánægjuleg og árangursrík.

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna en leikskólanum ber að veita foreldrum stuðning í uppeldi barna. Foreldrar þekkja sitt barn best, þeir hafa þekkt það frá fæðingu og fylgst með þroskaferli þess og líðan. Leikskólakennari kynnist barni í leikskólastarfi og þekkir þroska þess, færni og viðbrögð í barnahópi.

Leikskólinn stendur reglulega fyrir viðburðum sem efla samstarf heimilis og leikskóla.

Foreldrar eru boðnir í foreldrakaffi tvisvar á skólaárinu. Einnig er foreldrum boðið að koma á uppskeruhátíðir í lok söguaðferðarverkefna en á litlu-jólunum þá erum við kennarar og nemendur saman í jóla-rólegheitum og dönsum saman í kringum jólatréð. Að vori er foreldrum boðið á vorhátíð (Krummadaginn) í Laugarborg þar sem allir nemendur leikskólans koma fram og flytja skemmtiatriði. Einnig er öfum og ömmum barnanna boðið upp á kaffi einu sinni á skólaárinu, að vori.

Foreldrahandbók

Nýuppfærð handbók en hún var uppfærð í febrúar 2022. Áætlað er að endurskoða foreldrahandbókina á hverju ári framvegis og birta á heimasíðu skólans vel í tíma áður en nýtt skólaár hefst. Það er gert til þess að foreldrar geti kynnt sér mikilvæg atriði um aðlögun og skólabyrjun barnsins síns.

Foreldrafundir og foreldrasamtöl

Áður en barn byrjar leikskólagöngu í Krummakoti eru foreldrar boðaðir á kynningarfund. Þar er starfsemi skólans, stefna og áherslur kynntar, foreldrahandbók og skóladagatal kynnt ásamt ýmsum reglum sem tilgreindar eru í leikskólasamningi. Farið er vel yfir aðlögunarferli, starfsfólk kynnt og foreldrar fá kynningu á leikskólahúsnæðinu. Á þessum fundi er lagður fyrsti grunnur að farsælu samstarfi við foreldra.

Í aðlögun fylgja foreldrar börnum sínum í öllu starfi fyrstu dagana eftir aðlögunarskipulagi deilda og kynnast þá kennurum, starfsháttum og dagskipulagi leikskólans betur.

Foreldrar eru boðaðir á kynningu á leikskólastarfinu í september á sama tíma og Foreldrafélagið heldur aðalfund. Foreldrasamtöl eru tvisvar á ári, í október og rafrænt viðtal í mars. Eins geta bæði kennarar og foreldrar óskað eftir samtali oftar ef þurfa þykir. Að auki eru samtöl við foreldra í upphafi leikskólagöngu barns og útskriftarsamtöl vegna elstu nemenda að vori.

Fréttabréf og heimasíða

Einu sinni í mánuði fá foreldrar sendan fréttapóst í rafpósti frá leikskólanum. Þar kemur fram það helsta sem verið er að gera í leikskólanum og hvað framundan er. Myndir, fréttir og tilkynningar eru settar inn á heimasíðu skólans www.krummakot.leikskólinn.is.

Mánaðaráætlun fyrir hverja deild er send heim fyrir hver mánaðarmót. Þar geta börn og foreldrar fylgst með dagskrá hvers dags auk þess sem þar er að finna fréttir af deildinni og mikilvægar upplýsingar fyrir foreldra.

Uppfært 25. september 2019

© 2016 - 2023 Karellen