Karellen

Sérkennslustefna Krummakots

Börn hafa mismunandi getu, reynslu og þroska. Þau hafa þörf fyrir samneyti við önnur börn og tekið er tillit til þarfa hvers barns svo það fái notið sín í hópi annarra barna á eigin forsendum. Grunnþarfir barna eru hinar sömu, en þau eru ekki eins og hafa hvert um sig sérstakar þarfir.

Sérkennslustefna Krummakots byggir á hugmyndafræði um námsaðlögun og snemmtæka íhlutun. Lögð er áhersla á að börnin einangrist ekki heldur aðlagist vel barnahópnum. Að þau njóti eðlilegra félagslegra tengsla og hafi jöfn tækifæri til að ná árangri í leik og námi. Í snemmtækri íhlutun felst að bregðast við strax ef áhyggjur vakna. Hægt er að koma í veg fyrir eða draga úr erfiðleikum t.d. tengdum þroska, félagsfærni, hegðunar og máls ef viðeigandi þjálfun er veitt frá upphafi. Hugmyndafræðin um snemmtæka íhlutun nýtist öllum börnum í daglegu starfi.

Til að mæta þörfum hvers og eins er veittur viðeigandi stuðningur. Ýmist er unnið með nemendum í litlum hópum eða í einstaklingsvinnu og getur vinnan farið fram inn á deild, í útiveru eða í sérkennsluherbergi. Einnig geta nemendur farið í stutta vinnustund í sérkennsluherbergi með kennara ef nemandi þarf að komast í ró. Þar er unnið með þá færni sem nemandinn þarf að þjálfa hverju sinni. Sérkennslustjóri skipuleggur og heldur utan um og vinnur reglulega með málörvunar , Hljóm-2 - og félagsfærnihópa.

Vinnuferli sérkennslumála í Krummakoti

Í leikskólanum Krummakoti leggjum við áherslu á gott foreldrasamstarf og að foreldrar komi að ferli sérkennslumála frá upphafi. Ef foreldrar og/eða kennarar hafa áhyggjur af þroska barnsins fer ákveðið ferli af stað.

Hvað leikskólann varðar er fyrsta skrefið ávallt að tala við foreldra/forráðamenn barnsins. Skoða hvernig gengur heima og í leikskólanum og ræða leiðir til úrbóta. Gagnkvæm virðing skal höfð að leiðarljósi þar sem opin samskipti eru mikilvæg.

Ef foreldrar hafa áhyggjur hafa þeir samband við umsjónakennara og/eða deildarstjóra barnsins. Einnig geta foreldrar óskað eftir að tala við sérkennslustjóra. Sérkennslustjóri er faglegur umsjónarmaður sérkennslu í leikskólanum og annast m.a. frumgreiningu og ráðgjöf til annarra starfsmanna leikskólans.

Lausnateymi

Í vinnslu er að setja saman lausnateymi sem vinnur út frá Jákvæðum aga. Hægt verður að leita til teymisins ef upp koma erfiðleikar, þá sérstaklega varðandi hegðun. Lausnateymið vinnur þá að úrræðum í samráði við umsjónarkennara og/eða deildarstjóra.

Gagnasöfnun

Næsta skref er gagnasöfnun. Undir gagnasöfnun falla t.d. skráningar, myndbandsupptökur, greinagerðir og útfylling lista ef þörf er á. Fundið er út hvað er best fyrir barnið í samvinnu við foreldra. Unnið er úr upplýsingum frá foreldrum samhliða upplýsingum sem koma fram frá leikskóla. Ef grunur er um málþroskavandamál er mikilvægt að foreldrar fari með barnið í heyrnarmælingu. Það þarf alltaf að gera áður en barni er vísað til talmeinafræðings. Ef grunur er um sjónskerðingu er mikilvægt að foreldrar fari með barnið í sjónmælingu hjá augnlækni.

Listar sem aðeins kennarar fylla út:

AAL er athugunarlisti fyrir atferli leikskólabarna.

EFI-2 sem er skimunartæki fyrir mál- og hljóðkerfisvitund lögð fyrir öll börn á fjórða aldursári.

Hljóm2 er skimunartæki fyrir mál og hljóðkerfisvitund sem er lögð fyrir öll leikskólabörn á síðasta ári fyrir grunnskóla.

Matslistar sem notaðir eru á Krummakoti

Matstæki

Aldur

Áhersluþættir

Hver leggur fyrir

Lagt fyrir

Íslenski þroskalistinn

3ja-6 ára

Gróf-/fínhreyfingar, tal, hlustun, sjálfsbjörg, nám

Sérkennslustjóri

Kennari

Eftir þörfum

Smábarnalistinn

15-38 mánaða Mál- og hreyfiþroski

Sérkennslustjóri

Kennari

Eftir þörfum

AEPS-matskerfið

0-6 ára

Mat á færni og getu barns

Sérkennslustjóri

Kennari

Eftir þörfum

EFI-2

3-4 ára Málþroski

Sérkennslustjóri

Kennari

Öll börn á 4 aldursári

Hljóm-2

5 ára

Hljóðkerfisvitund

Sérkennslustjóri

Kennari

Alla

Tras

2-5 ára

Málþroski/Samskipti/

Félagsfærni

Sérkennslutjóri

Kennari

Alla











Einstaklingsnámskrá

Þegar gagnasöfnun hefur farið fram er útbúin einstaklingsnámskrá. Kennarar og foreldrar ræða saman um þá þætti sem þeir telja mikilvægt að barnið nái tökum á og sett eru markmið til lengri eða skemmri tíma. Árangur er metinn eftir ákveðinn tíma og þá skoðað hvort leita þurfi eftir sérfræðiþjónustu frá fjölskyldudeild. Miðað er við að unnið sé með barnið í 3-6 mánuði á markvissan hátt heima og í leikskóla áður en tilvísun er send.

Tilvísun til sérfræðiþjónustu

Á fræðslusviði starfar sérkennsluráðgjafi og sálfræðingur sem þjónusta leikskóla Akureyrarbæjar og kaupir Eyjafjarðarsveit þjónustu þaðan. Ef leita þarf aðstoðar varðandi barnið sendir sérkennslustjóri tilvísun til ráðgjafa á fræðslusviði. Í þeirri tilvísun kemur fram hvernig unnið hefur verið með barnið í leikskólanum/heima fram að þeim tíma. Öll gagnasöfnun fer með slíkri tilvísun. Allt er þetta gert í samráði við foreldra sem undirrita tilvísunina ásamt sérkennslustjóra og skólastjóra. Sérkennsluráðgjafi og/eða sálfræðingur meta hvernig áframhaldandi mat fer fram í samráði við sérkennslustjóra og foreldra.

Tilvísanir geta verið allt frá því að fá leikskólaráðgjafa til að fylgjast með og aðstoða/ráðleggja kennurum og/eða foreldrum, til sálfræðilegrar greiningar, þroskamats, talkennslu, PMTO- eða annarra námskeiða, svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að kennarar og foreldrar séu samstíga og að samvinna ríki þar á milli á öllum stigum málsins.

Ef talin er þörf á sálfræðilegri greiningu eru fylltir út matslistar sem sálfræðingur fræðslusviðs fer yfir. Allir þessir listar og öll gagnasöfnun gefa vísbendingar um hvort og þá hvernig hægt sé að bregðast við til að styrkja barnið eða aðstoða barnið til að komast út úr ákveðnum vanda.

Listar sem bæði foreldrar og kennarar fylla út eru, eftir því hvað á við:

●Listi sem metur Mótþróaþrjóskuröskun.

ASEBA. Þetta er spurningarlisti um hegðun og líðan barna á aldrinum 1½-5 ára og spurningar varða færni og vanda barnsins.

ADHD listinn (ADHD-Rating Scale).

SDQ-Ice eða „Spurningar um styrk og vanda“, en það er listi sem metur hegðun og líðan barna eldri en 4 ára. Skoðað er ofvirkni, hegðunarvanda, samskiptavanda, tilfinningavanda og jákvæða félagslega hegðun.

CAST er listi sem metur atriði á einhverfurófi.

AEPS-matskerfið en það nýtist við gerð einstaklingsnámskrár. Gerð eru markmið út frá færni barna á sex þroskasviðum: fín- og grófhreyfingum, vitrænum þáttum, aðlögun, félagslegum tjáskipum og félagslegu samspili.

Listar sem aðeins foreldrar fylla út eru t.d. Smábarnalistinn og Íslenski þroskalistinn.

Ef upp koma tilfelli þar sem foreldrar vilja ekki að send sé tilvísun vegna barnsins fer leikskólinn fram á staðfestingu þess efnis. Sérstakt eyðublað er þá undirritað af foreldrum og leikskólastjóra.

Fundur með sálfræðing, sérkennsluráðgjafa, foreldrum og kennurum.

Í framhaldi af tilvísun sem send er fer sérkennsluráðgjafi yfir gögn á fundi með foreldrum, sérkennslustjóra og umsjónakennara og/eða deildarstjóra barnsins. Þessir aðilar mynda teymi barnsins. Helstu niðurstöður eru ræddar og áframhaldandi vinna ákveðin.

Þegar um sálfræðilega greiningu er að ræða þar sem matslistar hafa verið fylltir út fer sálfræðingur fræðslusviðs yfir þá og kallar til skimunarfundar á leikskólanum til að fara yfir úrlausn þeirra. Ekki er leikskólaráðgjafi á þeim fundum nema ástæði þykir til. Eftir fundinn útbýr sálfræðingurinn álitsgerð sem send er bæði til foreldra og leikskóla. Álitsgerðin sýnir niðurstöður matslista og annarra fylgiskjala, álit á stöðu barns og tillögur um næstu skref. Á fundinum er sett fram áætlun um þátt skóla, foreldra og sérfræðiþjónustu um þessi næstu skref, hvort þörf sé á frekari greiningu, teymisvinnu eða hvort máli sé lokið.

Teymisvinna/teymisfundir

Í sumum tilfellum er þörf á teymisvinnu. Í teyminu eru foreldrar, sérkennsluráðgjafi, sérkennslustjóri, hópstjóri og/eða deildarstjóri og stuðningsaðili ef við á. Teymið fundar reglulega, oft á 6-8 vikna fresti til að byrja með eða eftir þörfum. Þar er farið yfir hvernig gengur heima og í leikskólanum. Ákveðið er með áframhaldandi vinnu þar sem einstaklingsnámskrá er höfð til hliðsjónar og hún endurmetin.

Aðlögun barna með sérþarfir

Þegar barn byrjar sem komið er með greiningu eða vitað er að þarfnast sérstakrar námsaðlögunar, sér sérkennslustjóri um að fara yfir gögn barnsins og hafa samband við foreldra og ráðgjafa. Haft er samráð við foreldra um aðlögun og þarfir barnsins strax í upphafi, notað er aðlögunarferli skólans og það aðlagað að barninu ef þörf krefur. Tekið er mið af þörfum barnsins og lögð áhersla á að það komi inn á eigin forsendum og unnin sé einstaklingsnámskrá í samvinnu við foreldra.

Sérkennslustjóri

Sérkennslustjóri í Krummakoti er Linda Lárusdóttir þroskaþjálfi, linda@krummi.is Sérkennslustjóri er með viðtalstíma þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá 8.00 til 8.30 en öllum foreldrum leikskólans er velkomið að hafa samband og fá tíma eftir samkomulagi.

Starfssvið: Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, lögum um málefni fatlaðra, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og stefnu viðkomandi sveitarfélags.

Starfslýsing og meginverkefni sérkennslustjóra

Stjórnun og skipulagning:

●Ber ábyrgð á og stjórnar skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslu í leikskólanum ásamt leikskólastjóra.

●Er faglegur umsjónarmaður sérkennslu í leikskólanum, annast frumgreiningu og ráðgjöf til annarra starfsmanna.

●Ber ábyrgð á miðlun upplýsinga milli sérkennsluráðgjafa/sérkennslufulltrúa leikskólans og starfsmanna.

●Hefur umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu.

Uppeldi og menntun:

●Ber ábyrgð á að börnum sem njóta sérkennslu í leikskólanum sé boðið upp á þroskavænleg verkefni.

●Hefur yfirumsjón með gerð verkefna og ber ábyrgð á gerð einstaklingsnámskráa fyrir börn sem njóta sérkennslu.

●Hefur yfirumsjón með að áherslum annarra sérfræðinga sé framfylgt í leikskólanum og að skýrslur séu gerðar.

Foreldrasamvinna:

●Vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barna sem njóta sérkennslu í leikskólanum og situr fundi og viðtöl með þeim.

●Veitir foreldrum/forráðamönnum barna sem njóta sérkennslu stuðning, fræðslu og ráðgjöf.

Annað:

●Ber að eiga í nánu samstarfi við sérkennsluráðgjafa og aðra sérfræðinga sem tengjast leikskólanum vegna barna sem njóta sérkennslu.

●Situr fundi þar sem fjallað er um málefni barna sem þurfa sérfræðiaðstoð eða sérkennslu í leikskólum samkvæmt boðun yfirmanns eða hlutaðeigandi aðila.

●Situr starfsmannafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varða starfsemi leikskólans.

●Sinnir þeim verkefnum er varða sérkennslu sem yfirmaður felur honum.

Fræðslusvið Akureyrarbæjar

Eyjafjarðarsveit er með samning við fræðslusvið Akureyrarbæjar og fer ráðgjöf vegna einstakra barna fram hjá þeim. Leikskólaráðgjafi vegna sérkennslubarna annast faglega ráðgjöf til sérkennslustjóra, leikskólastjóra og annarra starfsmanna leikskóla vegna barna sem þurfa á sérkennslu að halda.

Sérfræðiþjónusta í leik- og grunnskólum

Fjölskyldudeild sinnir sérfræðiþjónustu við grunn- og leikskóla að því er varðar málefni einstakra nemenda. Skólarnir vísa málum nemenda til deildarinnar með samþykki foreldra á sérstökum tilvísunarblöðum. Einnig geta foreldrar leitað beint eftir aðstoð vegna barna sinna.

Meðferð mála

Sem dæmi um vanda barns sem leitað er aðstoðar fyrir má nefna sértæka náms-erfiðleika, þroskafrávik, hegðunarvanda, einelti og tilfinningalega erfiðleika.

Starfsmenn meta vanda barns með prófunum, viðtölum og skoðun á stöðu barnsins og gera tillögur um úrbætur í samvinnu við fjölskyldu og skóla.

Nauðsynlegt getur verið að leita eftir þjónustu víðar t.d. á

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð ,SAK , HSN eða hjá öðrum aðilum og vísa þá starfsmenn deildarinnar á viðeigandi stofnun í samvinnu við foreldra.

Starfsmenn skólateymis sem þjónusta leikskólastigið:

María Aldís Sverrisdóttir, sérkennsluráðgjafi leikskóla elva@akureyri.is

Guðný Dóra Einarsdóttir, sálfræðingur leikskóla gudnydora@akureyri.is

© 2016 - 2024 Karellen