Karellen

Einkunnarorð Krummakots eru:
„Leikur er okkar nám“.

Skólasýn:
Virðing, góðvild og festa þar sem gleði og fagmennska ríkir.
Gildismatið grundvallast á lífsleikni og félagsfærni sem byggir á Jákvæðum aga.

Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að efla alhliða þroska allra barna, veita öllum börnum hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Hver leikskóli gerir sér skólanámskrá út frá grunnþáttum menntunar, námssviðum leikskóla og þeirri hugmyndafræði sem aðalnámskrá leikskóla byggir á.

Í Krummakoti er gengið út frá:

  • Að hvert barn sé einstakt og búi yfir margvíslegum hæfileikum.

  • Að börnin læri af eigin reynslu og með því að uppgötva sjálf.

  • Að leikurinn sé megin námsleið leikskólabarna.

  • Að börn séu hugmyndaríkir, forvitnir og skapandi einstaklingar.

  • Að námsumhverfi sem einkennist af virðingu, góðvild og festu styrki sjálfsmynd barnsins og trú þess á eigin getu og nám.

  • Að í viðfangsefnum barna beri að líta á ferlið sjálft sem dýrmætara en eiginlegan afrakstur vinnunnar.

Markmið okkar eru:

  • Að nemendur nái að þroska hæfileika sína eins og kostur er.

  • Að nemendur tileinki sér innri hvatningu og sjálfstjórn og styrki þannig sjálfsmynd sína og trú á eigin getu.

  • Að starfið sé fjölbreytt og ýti undir forvitni og sköpunargleði og þar með nám.

  • Að börnin upplifi að þau geti, vilji og langi.

Megináherslur í starfi Krummakots eru:

  • Jákvæður agi (JA). Jákvæður agi er sú uppeldisstefna sem leikskólinn aðhyllist og var byrjað að innleiða hana í skólastarfið árið 2012. Jákvæður agi byggir á sjálfstjórnarkenningum og kennir félagsfærni og lífsleikni. Meginreglur JA hjálpa til við að byggja samband væntumþykju og virðingar og þær auðvelda að finna lausnir til frambúðar. JA byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum.

  • Tónlist og tjáning. Markviss tónlistarkennsla hefur verið í leikskólanum mörg undanfarin ár og fara allir nemendur í tónlistartíma hjá tónmenntakennara einu sinni í viku. Yngsti hópurinn okkar fær einn tíma í mánuði til að byrja með. Auk þess skipa tónlist og tónlistaruppeldi veglegan sess í daglegu starfi leikskólans og má þar nefna daglegar söngstundir, söngsal á föstudögum og tónlistarleikshús í tengslum við söguaðferðarverkefni.

  • Söguaðferð (e. Storyline). Söguaðferð er notuð með öllum árgöngum leikskólans. Í söguaðferð er unnið með ákveðið þema í tiltekinn tíma. Verkefnið á sér upphaf með sérstakri kveikju og síðan eru öll námssvið aðalnámskrár fléttuð inn í verkefnið eftir því sem kostur er. Verkefninu lýkur svo með uppskeruhátíð þar sem nemendur sýna verk sín og eru með sýningu fyrir foreldra og aðra boðsgesti. Söguaðferðin er í raun háþróuð kennsluaðferð þar sem mörgum aðferðum er fléttað saman og áhersla lögð á virkni nemenda, leitarnám, umræður og spurningar, samþættingu námssviða og skapandi starf. Hún dregur nafn sitt af skipulagi ferlisins sem er eins og í sögu, þ.e.a.s. hún hefur augljósa byrjun, miðju sem skiptist í nokkra kafla og ákveðinn endi. Söguaðferðin byggir á þeirri sannfæringu að börn (allir) eigi auðveldara með að læra það sem sett er fram í söguformi og við lifum okkur inn í og tökum þátt í að skapa.

  • Markviss málörvun. Unnið er markvisst að því að efla málþroska nemenda, auka orðaforða þeirra og orðskilning og leggja með því dýrmætan grunn að læsi. Unnið er með bóklestur, sögur sagðar, loðtöflusögur, þulur og vísur, rím og hlustunarleiki. Markvisst er lesið einstaklingslega fyrir yngstu nemendur skólans og þá gripin færi sem gefast í leiktíma. Unnið er markvisst með aðferð sem nefnist Orðaspjall þar sem lögð er rík áhersla á að auka orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Lögð er áhersla á samstarf heimilis og leikskóla þegar kemur að bóklestri og tvisvar á ári er sett af stað samstarfsverkefni þar sem foreldrar eru hvattir til að lesa fyrir börn sín.

  • Hreyfing. Hreyfing skipar sess í starfi leikskólans. Allir árgangarnir fara reglulega í skipulagðar hreyfistundir í íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar og einnig reglulega farið í vettvangsferðir í nágrenni við leikskólann. Útivist er í boði alla daga nema veður hamli og mikið er lagt upp úr vettvangsferðum. Á yngstu deildinni, Furunni, er mikið unnið með hreyfingu á deildinni sjálfri.

© 2016 - 2023 Karellen